Björgólfur Guðmundsson fyrrverandi formaður SÁÁ er látinn
Hér fyrir neðan er minningargrein sem Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður SÁÁ skrifaði um Björgólf.
Björgólfur gekk til liðs við SÁÁ á stofndögum samtakanna, að áeggjan þeirra Binna Berndsen og Hilmars Helgasonar. Þátttaka Björgólfs var mikill happafengur fyrir hin ungu samtök, ekki aðeins þessa fyrstu daga heldur alla tíð síðan.
Björgólfur var vel metinn og áberandi í viðskiptalífinu þannig að staða hans í framlínu vitundarvakningar um áfengisvandann auðveldaði mörgum að koma úr felum og leita sér hjálpar.
Á upphafsárunum naut SÁÁ ómældra krafta Björgólfs við að koma starfseminni á laggirnar. Sannfæringarkraftur hans, áhugi og ljúfmennska opnaði margar dyr. Björgólfur var órjúfanlegur hluti af hópnum sem hóf glímuna við áfengisbölið, eins og það var kallað, og skrifaði þannig nýjan kafla í heilbrigðissögu þjóðarinnar.
Á framhaldsstofnfundi SÁÁ 9. október 1977 var Björgólfur kosinn í fyrstu framkvæmdastjórn samtakanna. Sú stjórn sat ekki auðum höndum. Mánuði síðar var búið að opna fræðsluskrifstofu í Lágmúla og afvötnunarstöð í Reykjadal.
Í bókinni „Bræðalag gegn Bakkusi“ sem Sæmundur Guðvinsson ritaði og kom út á 20 ára afmæli SÁÁ segir Björgólfur frá þessum tíma: „Fyrst og fremst var þetta svo skemmtilegt. Maður tók þetta sem skammtímaverkefni. Það var gífurlega mikill hugur í öllum. Þetta var eins og fyrir kosningar. Menn hringdu sig saman á morgnana, í hádeginu og á kvöldin. Við vorum í fullri vinnu annars staðar, en þetta var málið sem var í brennidepli. Það átti að koma þessu af stað strax og það var gert. Hraðinn var rosalegur. Menn voru ekki að hugsa tíu ár fram í tímann, bara afgreiða allt strax. Auðvitað voru fjölmargir utan samtakanna sem vildu fara hægar í sakirnar. Það var einfaldlega ekki til umræðu. Óskastundin var runnin upp.“
Björgólfur sat í framkvæmdastjórn SÁÁ óslitið frá 1977 til 1983. Hann var varaformaður samtakanna fram að aðalfundi 1981 en þá var hann kosinn formaður og endurkjörinn 1982. Á þeim tíma sem Björgólfur var í forystusveit SÁÁ flutti meðferðarstöðin úr Reykjadal á Silungapoll, framhaldsmeðferð hófst á Staðarfelli og lokið var við byggingu fyrsta áfanga sjúkrahússins Vogs. Á aðalfundi 1983, daginn eftir vígslu Vogs, hætti Björgólfur sem formaður en sat eftir það í aðalstjórn samtakanna áratugum saman.
Í Björgólfi átti SÁÁ dyggan bakhjarl sem lét sig ekki vanta þegar leggja þurfti til gott orð, opna dyr eða takast á við verkefni þegar til hans var leitað.
Við í SÁÁ og þær tugþúsundir einstaklinga sem hafa fengið hjálp í glímunni við fíknsjúkdóminn stöndum í mikilli þakkarskuld við Björgólf, einn af frumherjunum sem kveiktu ástríðubálið sem enn logar svo glatt.
Fyrir hönd okkar allra í SÁÁ votta ég ástvinum hans innilega samúð.
Anna Hildur Guðmundsdóttir
formaður SÁÁ
Björólfur verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju kl. 15:00 í dag 13.febrúar 2025.
Á myndunum er Björgólfur annars vegar að opna nýja göngudeild og skrifstofur SÁÁ við Síðumúla snemma á níunda áratug síðustu aldar og hins vegar að taka skóflustungu að nýju Vík um miðjan annan áratug þessarar aldar.