Fara í efni
22. júní 2023
Fréttir

Breytt þjónustustig á starfsstöðvum SÁÁ í sumar

Það er gömul saga og ný að SÁÁ þarf á hverju ári að takast á við miklar áskoranir í rekstri heilbrigðisþjónustunnar sem samtökin halda úti. Á síðast ári runnu yfir 350 m.kr af sjálfsaflafé samtakanna beint til að greiða niður þjónustu sem samtökin veita samkvæmt þjónustusamningum við ríkið. Þjónustusamningarnir ná yfir stærstan hluta heilbrigðisþjónustunnar, en eru úreltir, vanfjármagnaðir og duga hvergi nærri til að nýta alla afkastagetu þeirrar aðstöðu, mannauðs og þekkingar sem SÁÁ býr yfir.

Sem dæmi má nefna að þjónustusamningar gera ráð fyrir 1530 innlögnum á ári en full afköst á Vogi gætu sinnt 2200 innlögnum/ári. Á meðan lengjast biðlistar. Samningur um meðferðarstöðina Vík er um dagmeðferð í 5-6 klst/sólarhring en þeir sem hennar njóta eru þar í sólarhringsþjónustu í 28 daga. Enda eðlilegt þegar um svo alvarlegan langvinnan sjúkdóm er að ræða, eins og fíknsjúkdómur er. Meðferð tekur tíma. Verið er að gefa fólki verkfæri og tækifæri til nýrrar framtíðar. Allt annað líf. Alvarlegast er svo að núverandi samningur um lífsbjargandi lyfjameðferð við ópíóíðafíkn stendur aðeins straum af þjónustu fyrir 90 einstaklinga en á síðasta ári voru þeir 350.

Fyrir vikið stendur SÁÁ á hverju ári frammi fyrir því að fara bónleið til bjargar. Fyrst til yfirvalda en svo að lokum til þjóðarinnar.

Það er þyngra en tárum taki að þjónustukeðjan á milli Vogs, Víkur og göngudeildar slitni í sumar vegna fjárskorts. Með mikilli ráðdeild og skýrri forgangsröðun verkefna mun þó takast að tryggja að lífsnauðsynleg þjónusta sem veitt er á sjúkrahúsinu, m.a lyfjameðferðin við ópíóíðafíkn standi óskert til boða allt árið um kring. Er það fyrst og fremst stuðningi þjóðarinnar við starfsemi SÁÁ að þakka.

Takk fyrir stuðninginn!

Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ