Fara í efni
06. apríl 2021
Greinar

„Ég hef aldrei stundað tannlækningar ég á það alveg eftir“

María Ólafsdóttir ræddi við Ara Þorsteinsson.

„Ég hef aldrei stundað tannlækningar ég á það alveg eftir,“ segir Ari Þorsteinsson kankvís þar sem hann situr á móti mér á skrifstofunni sinni í Efstaleitinu.

Ari hefur gegnt starfi umsjónarmanns fasteigna hjá SÁÁ síðan í byrjun desember síðastliðnum og er í mörg horn að líta í fjölda bygginga sem telja samtals nærri 9.000 fermetra.

„Ég þarf ekkert að láta mér leiðast enda nóg að gera og það fer mér ágætlega. Ætli megi ekki segja að ég sé svona hefðbundinn reddari og það hentar mér vel að vera út um allt og ditta að og sinna hinu og þessu,“ segir Ari. Hann á að baki fjölbreytta starfsreynslu við ýmis iðnaðarstörf m.a. við smíðar og getur því bjargað sér með flest en ræður til sín iðnaðarmenn í stærri verk. Þá er hann lærður tækniteiknari en fyrir nærri 13 árum síðan sneri hann við blaðinu eftir „mikla vitleysu“ eins og hann segir sjálfur frá og settist á skólabekk.

Enginn vinnudagur eins

Í verkahring Ara eru ótal handtök og verkefni og vinnudagarnir alla jafna jafn fjölbreytilegir og þeir eru margir.

„Það er í raun enginn vinnudagur hefðbundinn. Ég reyni nú samt að stilla deginum upp svona nokkurn veginn en oft þarf ég síðan að þjóta skyndilega af stað og grípa inn í eitthvað annað. Það mæðir t.a.m. mikið á Vogi og margar verkbeiðnir sem berast þaðan varðandi almennt viðhald. Það er jú mikil umgengi um húsnæðið á Vogi og margir slitfletir þar. Svo er þetta nú rétt eins og með tannlækningarnar að húsnæðið er orðið um 40 ára gamalt og þá er einfaldlega orðið tímabært að fara í ýmsar framkvæmdir. Hreinsa tannsteininn sem safnast upp, fylla í holurnar og svona ýmislegt,“ segir Ari og hlær.

Húsnæðið í Efstaleitinu er nýrra og hefur verið vel við haldið en þar týnist þó ýmislegt til. Þá lokar á Vík í sumar og segist Ari áætla að verja bróðurpartinum úr sumrinu þar við að laga glugga, mála þakið og verkstýra ýmsu sem þar þurfi að framkvæma. Þá séu ýmis draumaverkefni á listanum t.d. á Vogi en það sé jú alltaf spurning um fjármagn hvort hægt sé að ráðast í slíkt.

Aðspurður um daginn framundan er auðheyrt að ýmis ólík störf eru á verkefnalistanum þann daginn. Ari hefur þegar verið í tölvupóstsamskiptum við samstarfsfólk um ýmis verk er bíða þá um morguninn. Framundan er svo að senda fleiri tölvupósta og leita tilboða fyrir garðslátt og ýmis verkefni er snúa að því að viðhalda fallegu umhverfi við Vog. Þá þarf Ari að fara í prentsmiðju auk þess að sækja blóm og færa velunnara samtakanna. Ljúka svo líklegast deginum á Vík þar sem tengja þarf og koma í gagnið nýrri þvottavél.

„Svo bíð ég bara spenntur eftir betri og hlýrri tíð til að geta verið úti og sinnt ýmsu viðhaldi án þess að vera kaldur og blautur,“ segir Ari að lokum og heldur út í daginn.