Fara í efni
14. janúar 2015
Greinar

Eitt skaltu vita, inn á Vog fer ég aldrei

Brynhildur Baldursdóttir var hætt í kirkjukórnum á Siglufirði af því að hún vissi ekki hvort hún yrði í sönghæfu ástandi á æfingum á þriðjudagskvöldum. Hún hafði heitið því að fara aldrei inn á Vog, en gafst svo upp og er búin að vera edrú og virkur þátttakandi í lífinu síðustu fimmtán árin.

„Mín saga er örugglega mjög svipuð sögum annarra kvenna í þessu,“ segir Brynhildur Baldursdóttir á Siglufirði. „Ég hafði klárlega verið að þróa þetta með mér frá því að ég var unglingur.

Tveimur árum áður en ég fór í meðferð benti maðurinn minn mér á að ég væri líklega alkóhólisti og ég horði á hann og sagði: Það er líklega rétt hjá þér en eitt skaltu vita: Inn á Vog fer ég aldrei. Svo kom að þeim tímapunkti að ég gafst upp fyrir þessu, í október 1999, komin með þrot í allt, hafði þá verið slæm í 4-5 ár, orðin óvirk í félagslífi og næsta skref var líklega að missa vinnuna

Fyrir mig var það greinilega erfiðast að taka ákvörðunina um að leita eftir hjálp en svo hafði ég loksins samband við góða vinkonu í Reykjavík sem leiðbeindi mér til trúnaðarkonu SÁÁ á Siglufirði og þá var þetta komið og ég var komin á vog 6. nóvember 1999.

Ég held að þetta sé gáfulegasta ákvörðun sem ég hef tekið á minni lífsleið að ákveða að þiggja meðferð hjá SÁÁ. Ég mætti þangað auðvitað hrædd og vissi ekki alveg í hvað ég var komin. Hafði þó fengið ábendingar um að ég mundi fá „mini-alka komplexa“ og þetta var erfitt en samt ekki.”

Auðnaðist að gefast upp

„Mér auðnaðist að gefast upp. Það var nýlega byrjað að bjóða sérstaka kvennameðferð, í kvennagrúpu, og ég hefði ekki viljað hafa það öðruvísi með fullri virðingu fyrir karlmönnum en mér líkaði það form mjög vel.

Þegar ég hugsa til þess tíma, sem ég var í meðferðinni og ég tala ekki um Vík; þegar ég ég keyri Vesturlandsveginn og fram hjá Vík, þá hlýnar mér um hjartaræturnar. Mín upplifun af þessu öllu var jákvæð og góð og ég kynntist frábæru fólki, bæði starfsfólki og meðferðarfélögum. Við suma hef ég haft samband alla tíð síðan.

Það að koma út úr meðferð; ég fékk bara jákvæð viðbrögð í kringum mig og yfirleitt klapp á bakið. Félagslegar aðstæður og eftirfylgni skipta svo miklu máli að lokinni meðferð. Það eru því miður ekki allar konur eins vel settar og ég og mér verður oft hugsað til þeirra.

Sjálf kom ég heim á mitt heimili, gat farið að stunda vinnu og á mína fjölskyldu og vini sem bíða eftir mér. Ég var til dæmis hætt að treysta mér til að syngja í kvennakór af því að ég vissi ekkert í hvernig ástandi ég yrði á æfingum klukkan hálfníu á þriðjudagskvöldi og ákvað að það væri best að hætta. En ég tók upp þráðinn og komst inn í lífið aftur og er búin að vera virkur þátttakandi í lífinu síðan og hef eiginlega verið á bleiku skýi síðan 1999. Maðurinn minn fór einnig í meðferð árið 2007 þannig að við erum bæði edrú, sem skiptir öllu máli í okkar lífi, og erum við til staðar fyrir þá sem einhvern tíma þurfa á okkur að halda og það er besta tilfinningin. Ég nýti mér samtökin; það er rosalega góður hópur og flott fólk hér sem maður getur alltaf leitað til.

Ég á son og hann á tvær dætur og líf mitt snýst svolítið um það að njóta þess að fá að vera amma, ég hefði ekki séð mig í þeim sporum sem virkur alkóhólisti. Auðvitað eru líka hæðir og lægðir og erfiðleikar en ekkert líkt því sem var áður og ég er að öllu leyti betur á mig komin til að takast á við þá. Ég nýt lífsins og held að ég hafi náð að gefa pínulítið af mér.

Hlýtur að mega lagfæra eitthvað

Ég tek þessa umræðu um meðferð hjá SÁÁ og konur svolítið inn á mig vegna þess að ég var í meðferð hjá SÁÁ og var mjög ánægð. Ég hef ekki sett mig mikið inn í þetta en það hlýtur örugglega að mega lagfæra eitthvað þarna eins og annars staðar. En ég gat ég ekki séð að eitthvað slæmt í gangi, öðru nær og mér sýndist það virka mjög vel að ungir væru í samskiptum við eldri, ég veit ekki hvort það er öðruvísi núna. Ég var á Vík var á þeim árstíma að það snjóaði mikið og með mér var ung stúlka, innan við tvítugt, og fórum út og bjuggum til snjóhús saman og skemmtum okkur vel við það. Það var góð stund fyrir okkur báðar. Það er erfitt að ætla að forðast það að ungir krakkar séu í samskiptum við þá sem eldri eru. Ég er ekki viss um að það sé ástæða til, nema síður sé. En þar sem er hópur þar er misjafnt fólk, það á við alls staðar.”

Viðtalið við Brynhildi birtist fyrst í SÁÁ blaðinu sem kom út 30. desember sl. Smellið hér til að lesa SÁÁ-blaðið 3. tbl. 2014 í heild sinni