Elska foreldra sína en hata sjúkdóminn
Sá ánægjulegi áfangi náðist nýverið að börnum á biðlista eftir sálfræðiþjónustu hjá SÁÁ fækkaði niður í 10 börn en á listanum voru 110 börn í júlí síðastliðnum.
Þær Arndís Sverrisdóttir og Silja Jónsdóttir, sem starfa sem sálfræðingar hjá samtökunum, segja að þennan góða árangur megi þakka breyttu fyrirkomulagi. Það hefur í för með sér að hægt er að taka fleiri viðtöl en ella en þjónustan hefur verið gerð skilvirkari á þann máta að meta enn betur þörf hvers barns. Í boði eru átta stöðluð viðtöl en sumum börnum nægir færri á meðan önnur hafa þörf fyrir fleiri.
Líðan barnanna er metin eftir sérstökum matslistum til að sjá hvort greina megi merki um kvíða, depurð, lélega sjálfsmynd eða annað viðlíka og fjöldi viðtalstíma áætlaður út frá því. Þó þessum einkennum sé ekki fyrir að fara segja þær Arndís og Silja langflest börn geta grætt á fræðslu og samtali.
„Oft er einhver reiði að bærast innra með þeim þó svo að þau virðist vel stemmd og fræðsla hjálpar alltaf til,“ segir Arndís og Silja bætir við að einnig sé mikilvægt að fræða barnið um hvers vegna foreldri sé tímabundið í burtu vegna neyslu eða meðferðar. Fram undan er nú vinna við að tryggja að börn sem allra flestra sem fari í meðferð komi og nýti sér sálfræðiþjónustuna.
Samfélagsumræðan opnari
Þær segja reynslu barna af fíknivanda misjafnan eftir því hvort börnin hafi alist upp við neyslu eða hvort að foreldrið í neyslu hafi ætíð búið annars staðar.
„Mín tilfinning er almennt sú að krakkar og unglingar í dag séu duglegri að tala um tilfinningar sínar en t.a.m. mín kynslóð svo þetta er alltaf að verða betra og betra. Samfélagið er orðið mun opnara en áður og við leggjum líka áherslu á það það sé allt í lagi að tala um að einhver sé fíknisjúkdóm rétt eins og sykursýki. Þeim finnst þó mörgum mjög skrýtið að koma hingað fyrst í viðtal þar sem að í raun ami ekkert að þeim og þau séu jú ekki með sjúkdóminn. Þá er lykilinn að fá þau á sitt band og fræðast um sjúkdóminn. Í framhaldinu af því kjósa flest að halda áfram en þau sem eru mögulega ekki tilbúin eru boðin velkomin seinna,“ segir Silja.
Stóri hluti starfsins snýst um að byggja upp traust á milli sálfræðinganna og barna enda sé erfitt fyrir þau að tala um vandamál í fjölskyldunni og þau upplifi það oft sem svik við foreldrana.
„Þau elska foreldra sína en hata þennan sjúkdóm og þar skapast togstreita svo við reynum að hjálpa þeim að aðgreina manneskjuna og sjúkdóminn,“ segir Silja.
„Það er áhugavert að margir foreldrar sem koma hingað með börnin sín eru sjálf börn alkóhólista og tala um að þau hefðu viljað fá svona þjónustu þegar þau voru yngri. Þau eru því mjög þakklát að þessi þjónusta sé í boði,“ bætir Arndís við.
Fræðsla í bland við forvarnir
„Í okkar meðferð leggjum við áherslu á að fræða börnin um fíknisjúkdóminn og hvað sé að gerast. Hvers vegna mamma og pabbi geti ekki bara hætt og gefa þeim meiri innsýn í þeirra hlið. Eins að fræðast um hvernig maður tali um tilfinningar og hvernig eigi að bregðast við aðstæðum t.a.m. þegar foreldrar eru að drekka. Fyrir unglingana leggjum við einnig áherslu á forvarnarstarf,“ segir Arndís.
Börnin eru útskrifuð að meðferð lokinni en geta alltaf komið aftur. Þær segja t.a.m. sum börn sem koma í viðtöl mjög unga koma aftur þegar þau séu orðin eldri. Stundum hafi þau þörf fyrir smá upprifjun eða stuðning ef ástandið hefur versnað á heimilinu.
Sálfræðiþjónusta fyrir börn á aldrinum 8-18 ára er veitt í Von, húsnæði SÁÁ í Efstaleiti 7. Að jafnaði fær hvert barn átta viðtöl sem kostar 5.000 kr. hvert en veittur er 50% systkinaafsláttur. Þjónusta er opin jafnt þeim börnum sem eiga foreldra eða aðstandenda í meðferð svo og þeim sem ekki hafa nýtt sér slíkt úrræði.
Sálfræðiþjónustan er að miklu leyti fjármögnuð með tekjum SÁÁ af álfasölu og öðrum fjáröflunarverkefnum. Barnamálaráðuneytið og Reykjavíkurborg hafa einnig veitt styrki til að halda þjónustunni úti, samkvæmt sérstökum samningum.