Fara í efni

Fjölskyldumeðferð

Þjónusta SÁÁ við fjölskyldur er ætluð aðstandendum fólks með fíknsjúkdóm

Aðstandendur

Þjónusta SÁÁ við fjölskyldur er ætluð aðstandendum fólks með fíknsjúkdóm hvort sem einstaklingurinn hefur farið i meðferð eða ekki.

Markmiðið er að auka þekkingu þátttakenda á einkennum fíknsjúkdómsins og áhrifum hans á fjölskylduna og meðlimi hennar.

Viðtalsþjónusta

Viðtalsþjónusta er í boði alla virka daga frá kl. 8.15 – 12.00 og 13.00 – 16.00. Hana geta allir aðstandendur nýtt sér, bæði þeir sem vita að einhver þeim nákominn á við áfengis- og vímuefnavanda að stríða og hinir sem eru í vafa og vilja fá upplýsingar og greiningu. Viðtölin taka oftast um 45 mínútur. Hægt er að panta tíma í síma 530-7600. Aðstandendur fólks með spilafíkn geta einnig nýtt sér viðtalsþjónustu fjölskyldudeildar SÁÁ.

Fjölskyldumeðferð

Fjölskyldumeðferð tekur fjórar vikur og er haldin á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 16.00 til 18.00. Að lokinni fjölskyldumeðferð geta þátttakendur nýtt sér stuðningshóp sem hittist vikulega í Von, Efstaleiti 7.

Í fjölskyldumeðferð er leitast við að auka þekkingu aðstandenda á fíknsjúkdómnum, einkennum hans og birtingarmyndum og áhrifum hans á alla þá sem búa í návígi við áfengis- og vímuefnasjúkling. Reynt er að aðstoða þátttakendur við að hrinda af stað breytingum til bóta innan fjölskyldunnar.

Eftirfarandi erindi eru hluti af fjölskyldumeðferð:

  • Áfengissýki og önnur vímuefnafíkn
  • Meðvirkni og hvernig hún breytir fjölskyldunni
  • Meðvirkni og hvernig hún breytir einstaklingnum
  • Stuðningur sem gerir ástandið verra
  • Sjálfsvirðing
  • Þróun batans
  • Sameiginlegur bati allra í fjölskyldunni

Síðasta skipti fjölskyldumeðferðarinnar er haldin stutt kynning á starfi Al-Anon.

 

 

 

Foreldrafræðsla

Að tala við börn um fíknivandann í fjölskyldunni

Að ræða við barnið sitt um fíknivandann í fjölskyldunni getur verið erfitt og flókið mál fyrir marga foreldra. Foreldrar eru hræddir um að segja eitthvað vitlaust eða segja of mikið. Foreldrafræðslan er fyrir foreldra og aðra aðstandendur barna sem vilja ráðgjöf um hvernig sé best að ræða fíknivanda við börn.

 

Fyrirkomulag:

Fræðslan er í formi fyrirlestrar þar sem farið er yfir hvernig foreldrar geta rætt við börnin sín um fíknsjúkdóminn. Sálfræðingur stýrir umræðum og svarar spurningum foreldra. Þátttakendur fá útprentað efni sem þeir geta nýtt sér og kynnt fyrir börnunum sínum.

Fræðslan fer fram í Von - göngudeild SÁÁ, Efstaleiti 7 í Reykjavík, kl. 16:30 – 18:30.

Verð er 6.000 kr. fyrir einstakling og 9.000 kr. fyrir par.

Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á netfangið barn@saa.is með fullu nafni, kennitölu, símanúmeri og dagsetningu. Einnig er hægt að skrá sig í síma 530-7600.

Dagsetningar er hægt að sjá hér að neðan.

  1. október – Akureyri
  2. nóvember – Reykjavík
  3. desember – Reykjavík