Fara í efni
14. apríl 2021
Greinar

Meðferð snýst um uppbyggingu, stuðning, fræðslu og eftirfylgni

María Ólafsdóttir ræddi við Söndru Dögg Björnsdóttur, Tita Valle og Þóru Björnsdóttur

Samheldið teymi hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, ráðgjafa, sálfræðinga og lækna á sjúkrahúsinu Vogi vinna í sameiningu að því að hjálpa fólki að ná bata.

Á Vog leitar ólíkur hópur fólks allt frá 18 ára til áttræðs sem er misjafnlega langt leitt í neyslu. Einstaklingsmiðuð viðtöl eru því mikilvægur hluti af meðferðinni auk hópfunda og fyrirlestra.

„Við leggjum metnað okkar í að hafa fyrsta komuviðtalið afslappað og styðjandi og óskum fólki m.a. til hamingju með þá ákvörðun að vera komið. Þessu fylgir oft ákveðinn léttir því mörgum líður eins og þeir séu að mæta í yfirheyrslu. Því fer fjarri þó vissulega sé nauðsynlegt að spyrja fólk út í þeirra neyslu til að geta greint vandann og boðið viðeigandi aðstoð,“ segir Þóra Björnsdóttir hjúkrunarforstjóri á Vogi.

Að loknu komuviðtali fyrsta daginn við sjúkraliða, ráðgjafa og lækni tekur við einstaklingsbundin fráhvarfsmeðferð. Sumir þurfa nauðsynlega að leggjast inn og fá viðeigandi meðferð sem oftast varir í um 7-10 daga en lengur sé fólk háð róandi lyfjum og sterkum verkalyfjum.

„Fólk er mismunandi veikt og fráhvörfin misjafnlega erfið eftir efnum. Fullorðnir einstaklingar sem hafa drukkið áfengi á hverjum degi í langan tíma eru t.a.m. oft mjög líkamlega veikir og þurfa hjúkrun fyrstu dagana. Þeir sem koma hingað undir áhrifum fá strax rúm og er hjúkrað við rúmstokkinn. Ósjálfráða taugakerfið fer í uppnám í fráhvörfunum og eitt af því sem við gerum er að gefa fólki lyf sem fyrirbyggir krampa og annað slíkt sem fylgir. Eins gefum við fólki iðulega vítamínsprautur en B-vítamínskortur hrjáir t.a.m. oft þá sem eru langt leiddir af áfengissýki. Á meðan fólk er mjög veikt eða vímað liggur það inni á sérstakri gát þar sem við fylgjumst með fólki á 15 mínútna fresti og léttum svo á gátinni eftir því sem dregur úr. Síðan færist fólk inn á sjúkrahúsið þar sem dregur úr gátinni og svo niður á almennan gang,“ útskýrir Þóra.

Slökunartækni gefur góða raun

Hjúkrunarfræðingar á Vogi veita alhliða og sérhæfða hjúkrun fyrir fólk með fíknisjúdóm. Fylgst er með næringu og vökva auk þess sem heilsufarsaga fólks er höfð til hliðsjónar og gefin þau lyf sem nauðsynleg eru á borð við blóðþrýstings- eða magalyf og fleira slíkt. Þá segir Þóra að lögð sé áhersla á að hjálpa fólki að komast í jafnvægi og róa hugann með því að hafa umhverfið rólegt og án áreitis.

Engar heimsóknir eru leyfðar og ekkert útvarp eða sjónvarp. Á kvöldin eru haldnir 12 spora fundir og fólk notar tímann gjarnan til að spila eða lesa og finna kyrrð innra með sér til að gera útskriftarplön og sjá fyrir sér hvernig bataferlið haldi áfram að meðferð lokinni.

„Á kvöldin getur fólk líka sótt hópslökun og slökunartæknin hefur reynst vel þegar það kemur órói í fólk. Margir eru svefntruflaðir eftir fráhvörf og hræddir við að sofa ekki. Þá er mikilvægt að hjálpa fólki við að slaka á. Eins grípur oft um sig örvænting í fráhvörfunum t.d. út af heimilisaðstæðum sem jafnar sig smám saman með góðri umönnun og ró,“ segir Þóra sem sótt hefur námskeið í djúpslökun og dáleiðslu.

Breyting á skömmum tíma

Á morgnana og í hádegi eru haldnir fundir þar sem starfsfólk fer yfir stöðu og árangur hjá hverjum og einum og hvað sé framundan. Þegar mest er geta verið 60 manns á Vogi hverju sinni og dagarnir því oft erilsamir og starfið fjölbreytt.

„Það er mjög gefandi og fjölbreytt að vinna hérna og gaman að sjá breytinguna sem getur orðið á fólki á skömmum tíma. Eins að sjá hvað sjúklingahópurinn styður vel við bakið á hvort öðru sem hefur græðandi áhrif. Rétt eins og með aðra sjúkdóma er eðlilegt að það verði bakslag og fólk þurfi að koma aftur. Það er engin skömm að því en mikilvægt að koma aftur til að finna lausnina og batann,“ segir Þóra.

Sandra Dögg Björnsdóttir, sem hefur starfað sem sjúkraliði á Vogi frá útskrift árið 2012, tekur undir þetta.

„Eins og þetta er oft erfitt er jafn dásamlegt að sjá breytinguna á fólki þegar það nær árangri. Eðlilega er fólk kvíðið þegar það kemur hingað í fyrsta sinn og hefur ákveðna mynd af því sem hér fer fram. Ég á það til að segja við fólk þegar ég tek á móti því að ég geti nærri tryggt að þeim eigi eftir að finnast þetta hafa verið ótrúlega góður tími. Enda er það raunin að fólk er lang oftast ánægt og hrósar okkur í hástert,“ segir Sandra.

Á morgnana er sjúkraliðum fengin ákveðin verkefni yfir daginn sem fela í sér flutning sjúklinga á milli deilda og undirbúning og þrif fyrir nýja súklinga, umsjón með sjúklingum á gát og sjúkragangi,Covid sýnatöku og ritarastörf.

Starfsfólk Vogs er um þessar mundir á námskeiði í áhugahvetjandi samtalsaðferð sem snýst um að nálgast einstaklinginn út frá því sem hann vill gera og breyta hjá sjálfum sér frekar en að segja viðkomand til með beinum hætti.

„Hægt er að nýta sér ýmislegt úr þessari aðferð í mínu daglega starfi. Aðferðin nýtist t.a.m. vel til að setja sig í spor fólks sem kemur í ójafnvægi til manns á vaktina,“ segir Sandra

Tita Valle er hjúkrunarfræðingur á Vogi og tekur undir með starfssystrum sínum að starfshópurinn sé frábær og starfið krefjandi en um leið mjög gefandi.

„Þetta er alveg nýtt umhverfi fyrir mig. Ég er frá Filippseyjum þar sem ekki er mikill skilningur á fíknisjúkdómum og alkóhólisma og öðruvísi tekið á málum. En ég hef fundið mig vel hér, starfið er margþætt og enginn dagur eins. Það er mjög gefandi að sjá fólk ná bata og teymið vinnur mjög vel saman við að aðstoða fólk við að ná bæði líkamlegum og andlegum bata,“ segir Tita sem hefur starfað á Vogi í tvö og hálft ár.

„Meðferð snýst um uppbyggingu, stuðning, fræðslu og eftirfylgni. Ólík þekking innan teymisins myndar mikilvægan samhljóm og sífellt er verið að þróa meðferðina meira og meira. Við bjóðum nú t.d. sérstakan hóp bæði fyrir eldra og yngra fólk og kynjaskiptum samtalsgrúppunum sem hefur reynst vel. Þá fær hver og einn sem hingað kemur einstaklingsmiðaða meðferð í formi viðtala eins og komu- útskriftarviðtal,“ segir Þóra að lokum.

Sandra Dögg Björnsdóttir sjúkraliði, Tita Valle hjúkrunarfræðingur og Þóra Björnsdóttir hjúkrunarforstjóri á Vogi.