Fara í efni
26. febrúar 2025

Heilbrigðisráðherra heimsækir SÁÁ

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra og Dagur B. Eggertsson alþingismaður komu í heimsókn til SÁÁ þriðjudaginn 25.febrúar. Með í för voru Jón Magnús Kristjánsson aðstoðarmaður ráðherra, Ester Petra Gunnarsdóttir lögfræðingur á skrifstofu lýðheilsu og vísinda, Sigríður Jónsdóttir stefnumótunarsérfræðingur og Margrét Erlendsdóttir upplýsingafulltrúi Heilbrigðisráðuneytisins. Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður SÁÁ, Valgerður Rúnarsdóttir framkvæmdastjóri lækningasviðs, Ásgerður Th. Björnsdóttir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og Ingunn Hansdóttir framkvæmdastjóri sálfélagslegrar meðferðar tóku á móti gestunum ásamt fleira starfsfólki SÁÁ.

Anna Hildur bauð gestina velkomna og fór yfir þær breytingar sem hafa orðið í stjórnun og starfsemi SÁÁ. Hún ræddi einnig markmið og tilgang SÁÁ og hvernig skerpt hefði verið á þeim og unnið að með einbeittari hætti. Ingunn talaði um hvernig meðferð og þjónusta SÁÁ væri byggð upp fyrir skjólstæðinga, hver væru markmiðin með bata, hvað felst í meðferð, hvernig við bregðumst við gagnvart einstaklingum, hvernig móttaka SÁÁ hefði breyst og fleira. Valgerður Rúnarsdóttir fór yfir starfsemina á Vogi, ýmsar tölulegar upplýsingar og hvernig greining á fíknsjúkdómum fer fram.

Gestirnir byrjuðu heimsókn sína í Von og fóru síðan upp á Vog þar sem gengið var um húskynnin og sest niður í samtal.

Ráðherra var mjög ánægð með móttökurnar og heimsóknina og sagði í lokin; „Eitt af áherslumálum ríkisstjórnarinnar er að efla meðferðarúrræði vegna fíknvanda, m.a. með auknu fjármagni strax á þessu ári. Fyrir mig er heimsókn eins og hingað til SÁÁ mikilvæg, að hitta stjórnendur og starfsfólk, sjá aðstæður og fá greinargóða kynningu á starfseminni, helstu tölum, þróun meðferðar og áherslur í meðferðarstarfinu. Það er augljóst að SÁÁ hefur mikinn metnað, sinnir faglegu starfi og leggur í vaxandi mæli áherslu á einstaklingsmiðaða meðferð og á fjölskyldumeðferð sem skiptir miklu máli. Eitt stærsta sóknarfærið á sviði áfengis- og fíknmeðferðar hér á landi er að auka samstarf og samvinnu þeirra sem starfa á því sviði og setja samstarfið í formlegri farveg. Því hef ég ákveðið að skipa stýrihóp með haghöfum áfengis- og vímuefnameðferðarkerfisins og veit af góðum undirtektum að það er frjór jarðvegur fyrir slíkan vettvang."

Anna Hildur formaður SÁÁ var ekki síður ánægð með þessa góðu heimsókn; „ Ég er mjög þakklát fyrir að heilbrigðisráðherra hafi gefið sér tíma til að heimsækja okkur til að kynna sér starfsemina. Núverandi ráðherra er vel inni í málum og hefur sýn á hver vandinn er og það er okkur mikils virði. Það einnig mikilvægt fyrir okkur að geta sagt ráðherra og öðru starfsfólki ráðuneytisins frá því hvað við erum að gera, augliti til auglitis og ekki er síður mikilvægt að með henni í för er þingmaður sem hefur bæði mikla innsýn í okkar málefni og ekki síður þekkingu á málflokknum.“

Í sama streng tók Ingunn Hansdóttir og bætti við; „Það hefur gríðarmikla þýðingu fyrir okkur að fá ráðherra og þingmenn til okkar og fá að kynna fyrir þeim starfið okkar, þannig að þau viti hvað er að gerast hér hjá okkur og geti þannig tekið ákvarðanir með þá vitneskju í farteskinu."

Dagur B. Eggertsson alþingismaður var spurður hvaða máli það skipti fyrir þingmann að koma í heimsókn sem þessa og svaraði því til að það væri áhugavert fyrir hann sem nýjan þingmann að heimsækja staði sem SÁÁ, jafnvel staði sem hann hefði heimsótt áður sem borgarstjóri, en að þessu sinni að horfa á starfsemina og málefnin út frá sjónarmiði Alþingis og heilbrigðiskerfisins í heild sinni. Þá sagði hann; "Það skiptir auðvitað gríðarlegu máli fyrir líðan og heilsu í landinu að hafa góðar forvarnir og góða lýðheilsusýn á þróun mála, en ekki síður er mikilvægt að hafa virka og góða meðferð við fíkn og stuðning við fjölskyldu þeirra sem stríða við slíka sjúkdóma og þeirra nánasta umhverfi. SÁÁ hefur um áratugaskeið gengt þar lykilhlutverki, fagmennskan eykst og mjög mikið til af tölulegum gögnum og efni sem nýtist til að taka góðar ákvarðanir í frekari stefnumótun. Ég kem út úr þessari heimsókn ríkari af þekkingu, reynslu og innsýn, fyrir utan að hitta margt gott fólk sem er að vinna mikilvæg störf. Takk fyrir mig."

Við hjá SÁÁ þökkum okkar góðu gestum fyrir komuna og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.