Nýtt skipurit SÁÁ Ragnheiður nýr forstjóri SÁÁ
Aðalstjórn SÁÁ kom saman fimmtudaginn 29.febrúar til að taka afstöðu til tillögu framkvæmdastjórnar um nýtt skipurit SÁÁ. Tillagan var samþykkt einróma og um leið var tilkynnt að Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir gæðastjóri SÁÁ hefði verið ráðin forstjóri SÁÁ. Undir forstjóra heyra fjögur svið, framkvæmdastjóri lækninga er Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar Þóra Björnsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs er Ingunn Hansdóttir og framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Ásgerður Th. Björnsdóttir.
Undanfarin tvö ár hefur markvisst verið unnið að skipulagsbreytingum innan SÁÁ, sem miða að því að því að skýra hlutverk og ábyrgðarröð stjórnenda og starfsfólks, endurskipuleggja rekstur heilbrigðisþjónustu SÁÁ þannig að hún verði skilvirkari, hagkvæmari og betur til þess fallin að þjóna hagsmunum skjólstæðinga okkar. Þá gerir þessi formbreyting okkur auðveldara fyrir að koma fram í samningaviðræðum við opinbera aðila, starfsemi okkar verður gagnsærri og verkefni mismunandi deilda innan SÁÁ afmarkaðri. Eftir þessar breytingar er SÁÁ mun betur í stakk búið til að þjónusta a.m.k. jafnmarga einstaklinga og áður með fjölbreyttari vanda, en jafnframt opnast ýmis tækifæri til fleiri verkefna og framþróunar í meðferðarúrræðum.
SÁÁ er byggt upp af hugsjónafólki sem hefur í gegnum tíðina fengið til liðs við sig besta mögulega fagfólk til að stýra og veita heilbrigðisþjónustuna. Svo verður áfram. Til þess að ná þeim árangri sem SÁÁ hefur þegar náð og til þess að þróa betri og skilvirkari meðferð þarf að samþætta fagleg og rekstrarleg sjónarmið. Samhent stjórnendateymi er nauðsynlegt og þess vegna hefur Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir verið ráðin forstjóri SÁÁ. Hún hefur mikinn skilning og innsýn í starfsemi SÁÁ, mikla þekkingu og kunnáttu til að takast á við verkefnin sem framundan eru og er rétta manneskjan til að stýra sérhæfðri heilbrigðisþjónustu SÁÁ og annarri starfssemi SÁÁ til framtíðar. Við bjóðum Ragnheiði Huldu velkomna til starfa í nýju hlutverki, en hún hefur undanfarin þrjú ár gegnt stöðu gæðastjóra SÁÁ. Við hlökkum til að starfa áfram með Ragnheiði, SÁÁ til heilla.
Fyrir hönd SÁÁ
Anna Hildur Guðmundsdóttir
Formaður SÁÁ