SÁÁ hlýtur viðurkenningu fyrir rannsóknarstarf á alþjóðlegum vettvangi
Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir, forstjóri SÁÁ sækir þessa vikuna alþjóðlegt þing (INHSU 2024), ásamt Valgerði Rúnarsdóttur framkvæmdastjóra lækninga í Aþenu á Grikklandi. Þingið fjallar um heilbrigðisþjónustu fyrir fólk sem notar vímuefni, með m.a áherslu á lifrarbólgu C.
Á þinginu er Ragnheiður að kynna áframhaldandi niðurstöður í tengslum við Meðferðarátak gegn lifrarbólgu C, sem starfrækt var í samstarfi heilbrigðisyfirvalda, Landspítala og SÁÁ og náði eftirtektarverðum árangri gegn alvarlegri heilbrigðisvá sem steðjar sérstaklega að einstaklingum sem sprauta vímuefnum í æð. Með átakinu (sem lauk 2021) náðist 80% lækkun á algengi lifrarbólgu C á meðal þeirra einstaklinga sem sprauta vímuefnum í æð á fyrstu tveimur árum átaksins. Framhaldsniðurstöður sýna fram á að náðst hefur að halda þessum árangri við, þrátt fyrir að átakinu hafi lokið (mynd 1).
Má leiða að því líkum að árangurinn megi amk að miklu leyti þakka því að skimun og lyfjagjöf við alvarlegum smitsjúkdómi, þar sem einstaklingar sem sprauta í æð eru með aukna áhættu, sé samþætt meðferð við fíknsjúkdómi. Áframhaldandi skimun og lyfjagjöf til þeirra einstaklinga sem greinast með lifrarbólgu C er skjót og skilvirk þegar hún er hluti af þjónustu SÁÁ.
Aðspurð um þýðingu þessara verðlauna segir Ragnheiður Hulda: “Þetta er fyrst og fremst mikill heiður að fá verðlaun á stórri og alþjóðlegri ráðstefnu en einnig viðurkenning á því mikla og fjölbreytta starfi sem fer fram í meðferðarkerfinu okkar. Þetta sýnir enn og aftur hve stórkostlegum árangri má ná þegar heilbrigðisyfirvöld styðja myndarlega við heilbrigðisþjónustu eins og gert var í Meðferðarátakinu á sínum tíma. Þjónustuveitendum er svo alveg treystandi til að halda áfram sínu góða starfi og leggja sig að fullu fram við að varðveita og auka enn frekar á árangurinn.”