Fara í efni
01. september 2021
Greinar

Sjá vonina kvikna

Sara Karlsdóttir og Rakel Birgisdóttir starfa báðar á Vík sem áfengis- og vímuefnaráðgjafar með sérverkefni. Þær voru báðar á Vík í sinni meðferð og þekktu því umhverfið og starfið vel þegar þær hófu störf. Umhverfið og andrúmsloftið á Vík segja þær einstakt og hvoru tveggja eigi stóran þátt í bata þeirra sem þar dvelja auk sjálfsvinnu og daglegrar rútínu.

„Ég hef starfað hér á sjöunda ár og hóf störf þegar ég var tveggja ára edrú. Ég lifi og brenn fyrir starfið mitt og Vík er svona staðurinn minn. Eins og er starfa ég kvennamegin og finnst það bara æðislegt,“ segir Sara. Rakel starfar bæði kvenna og karlamegin á Vík í dag en hefur starfað á öllum starfsstöðvum SÁÁ. „Ég hóf störf hjá SÁÁ þann 19 nóvember 2012 en þá var ég búin að vera edrú í tíu ár og er nú búini að vera í þrjú ár í beit á Vík og kann vel við mig hér,“ segir Rakel.

Báðar hafa lokið þriggja ára námi sem áfengis- og vímuefnaráðgjafar sem byggt er upp af handleiðslu og tímum í klíník. Þær bera náminu vel söguna en í dag sækja þær regulega endurmenntun sem þær segja órjúfanlegan þátt af starfinu og nauðsynlega til þess að fólk brenni síður upp í starfi. Fræðsla er í boði vikulega fyrir starfsmenn og eins hafa þær sótt utaðkomandi fræðslu bæði hjá bandarísku ráðgjafasamtökunum NAADCA og nú nýverið í þeirri tækni er kallast áhugahvetjandi samtal (motivational interviewing). Í venjulegu árferði hafa þær einnig farið erlendis á ráðstefnur sem þær segja hafa verið mjög áhugavert og í raun magnað hve framarlega svo lítil þjóð standi í meðferðarmálum. Víða sé mjög dýrt að fara í meðferð og því í raun ekki allra á meðan fólk geti t.a.m. ætíð sett sig í samband við ráðgjafa á göngudeild SÁÁ í Efstaleiti.

Mikilvægt að draga úr streitunni

„Góð rútína skiptir miklu máli því þegar maður kemur inn í meðferð hefur oftast verið mikið rútínuleysi í gangi hjá fólki. Sú vinna við að skapa góða rútínu byrjar strax á Vogi og heldur áfram hér hjá okkur þannig að fólk er komið í ákveðinn takt þegar það kemur heim. Við leggjum áherslu á að fólk taki Vík með sér heim, fylgi áfram útskriftarplani og haldi áfram að gera það sem það var búið að vera að gera hér í 28 daga,“ segir Rakel og Sara bætir við að Vík mætti líkja við æfingabúðir þar sem viðkomandi æfir sig í ákveðinni rútínu og safnar verkfærum í verkfæratöskuna til að nýta að meðferð lokinni.

„Vík er hugsað sem heimili og hér er unnið í opnara og ólíku umhverfi en á Vogi sem er auðvitað sjúkrahús og annars eðlis. Segja má að hér sé fólki pakkað í þessa bómull sem það þarf til að geta tekist á við sjálft sig án áreitis t.d af síma. Þetta er svo nauðsynlegt því streita er stór partur af því að fólk fær bakslag og því mikilvægt að draga úr henni eins og kostur er,“ segir Sara og Rakel bætir við að í meðferðinni sé lögð áhersla á streituspjörun og fíknispjörun. Þau verkfæri sé mikilvægt að fólk taki með sér heim enda þurfi oftast að grípa í þau mjög fljótlega eftir heimkomu.

Má heyra saumnál detta

Náttúran við Vík er falleg og nærandi göngutúrar daglegur partur af dagsplani þar sem unnið er með fimm svokallaðar batafestingar; svefn, hreyfingu, mataræði, slökun og sjálfsskoðun. Þetta er allt gott að iðka í friði og ró og koma í rútínu á rólegum stað þar sem hvorki finnst sjónvarp eða sími. Þær segja fólki vissulega finnast skrýtið fyrst að vera símalaust en sé síðan þakklátt fyrir að losna við áreitð.

„Húsið er líka fallegt og allir í sér herbergjum og auðvitað hefur það meðferðarlegt gildi að vera í góðum aðstæðum,“ segir Rakel.

Dagskrá hefst snemma á morgnana og er lokið á milli klukkan 20-21 á kvöldin. Yfir daginn eru á dagskráð fræðsla og fyrirlestarar, hópastarf og viðtöl auk persónulegra verkefna þar sem fólk skrifar í í verkefnabækur og dagbækur. Dagarnir eru því langir og margt um að vera og segir Sara að oftast megi heyra saumnál detta eftir klukkan 21 kvennamegin. Um helgar segja þær litlu hlutina skipta máli eins og ís á sunnudögum og lengri gönguferðir en þá noti fólk líka tímann til að hvíla sig eftir vinnuvikuna rétt eins og í daglegu lífi.

Starfssemin er þverfagleg og hægt að kalla í alla þá þjónustu sem þarf t.a.m. lækni og hjúkrunarfræðing þó viðkomandi séu ekki fast á staðnum.

Sjá vonina kvikna

Að lokinni dvöl á Vík tekur við göngudeildin í Efstaleiti í þrjá mánuði tvisvar í viku og einu sinni í viku í níu mánuði. Þær segja sterk vinatengsl myndast á þessum tíma og magnað sé að sjá ólíkar konur úr ólíku umhverfi tengjast djúpum vináttuböndum sem ella hefðu ekki orðið til.

„Það er með ólíkindum hvað fólk breytist á þessum tíma t.d. þegar kona kemur inn á Vog grá af kvíða og við fylgjum henni svo eftir á Vík og útskrifum þaðan tæpum mánuði á milli þá er himinn og haf á milli líðan hennar. Breytingin verður af hvernig viðkomandi skilgreinir sjálfa sig upp á nýtt og öðlast von og þetta gefur manni mest ,“ segir Rakel og Sara tekur undir þetta og segir að uppáhalds augnablikið sé þegar fólk byrjar að brosa með augunum. Eftir aðeins nokkrar vikur sé glampinn kominn og gefi von um hversu mikið í viðbót sé hægt að vaxa í framhaldinu.

„Það er líka svo gaman að kynnast manneskjunni á bak við þennan sjúkdóm sem hefur verið að þvælast fyrir henni og sjá hana hætta að burðas með skömmina og trúa á ímynd sína sem fallega manneskju og flottan einstakling,“ segir Sara.

Þeir sem dvelja á Vík eru á öllum aldri en bæði fyrir konur og karla eru almennar grúppur, grúppa fyrir heldri borgara og síðan endurkomuhópar. Í endurkomuhópum er áherslan önnur og meira skoðað hvað þróar bakslag og hvernig megi greina viðvörunareinkenni. Oftast séu það streita, kvíði, flótti og einangrun sem stuðli að bakslagi og sjá megi endurtekningu frá innlögn til innlagnar. Ítarleg útskriftaráætlun er því nauðsynleg og eftirfylgni ekki minna mikilvæg en meðferðin sjálf.

Áfangaheimili í draumsýn

Þær Sara og Rakel segja umræðuna um fíknisjúkdóma verða sífellt opinskárri og SÁÁ hafi verið mjög sýnilegt í þjóðfélaginu. Þær nefni oft að fólk þurfi að vera duglegt að halda uppi fána félagsins og eftir því sem umræðan breytist því minna verði fordómarnir enda engin skömm að því að fara á sjúkrahús sé maður með sjúkdóm.

Aðspurðar um draumsýn fyrir framtíðina svara þær nærri samstundis að það sé áfangaheimili þar sem konur gætu verið börnin sín í og þannig blómstrað í sinni meðferð rétt eins og karlarnir gera í dag á Vin.

Sara Karlsdóttir og Rakel Birgisdóttir