Fara í efni
23. mars 2016
Greinar

Stundum erum við bara að minnka skaðann

„Þessi sjúkdómur okkar, áfengis- og vímuefnafíkn, er ekki einfaldur. Hann getur reyndar verið mjög einfaldur í sinni tærustu mynd en flestir einstaklingar eiga við ýmislegt annað að etja,” segir Valgerður Rúnarsdóttir, sem varð fyrst íslenskra lækna til að ljúka viðurkenndu sérfræðiprófi í fíknlækningum. Hún hefur starfað við að lækna íslenska áfengis- og vímuefnasjúklinga á sjúkrahúsinu Vogi síðastliðin sextán ár og er yfirlæknir þar. Hér fara á eftir hlutar úr ítarlegu viðtali sem birt var í SÁÁ blaðinu 3. tbl. 2014 þar sem rætt er um fíknsjúkdóminn, orsakir hans og batahorfur og hvernig eigi að meta árangur meðferðar.

„Það eru nokkrir áratugir síðan það var ljóst hvað lægi að baki þessum sjúkdómi og í dag er talað um þetta upphátt og opinberlega sem sjúkdóm í heilanum. Við læknar getum fengið mjög miklar upplýsingar um hvað veldur, hvaða breytingar verða hjá sjúklingi og hvaða áhrif þær hafa.”

Langoftast veðja starfsstéttir, sem eru að sinna hinum ólíku vandamálum mannsins, á að það sé gott að taka á áfengis- og vímuefnavandanum áður en farið er að snúa sér að öðrum inngripum. Hvort sem verið er að tala um að fara í erfiða aðgerð eða meðhöndla alvarlega geðsjúkdóma eða vægari geðsjúkdóma eða annað þá skiptir máli að huga jafnframt að fíknsjúkdómnum. Stundum þarf að meðhöndla fleiri en einn sjúkdóm í einu en meðferðir geta verið mismunandi áríðandi. Oftast er mikilvægast að koma að meðferð á áfengis- og vímuefnavandanum fyrst af því að hann ruglar allt sem snýr að geðsjúkdómum og gerir sumum ókleift að taka ábyrgð á bata frá öðrum sjúkdómum og vandamálum.

Stundum erum við bara að minnka skaðann

Ef þetta væri einfalt og við hefðum gott lyf við þessum sjúkdómi værum við auðvitað ánægð. Þótt við höfum lyf við ópíóíðafíkn eru ekki til góð lyf við t.d. amfetamínfíkn eða áfengisfíkn. Þess vegna þarf að nota leiðir eins og meðferðin er. Og þá er bindindi ekki alltaf eina markmiðið þótt það sé örugglega draumur allra okkar sjúklinga. Stundum erum við ekki að gera annað í meðferðinni en að minnka skaðann af neyslunni fyrir einstaklinginn og fyrir fjölskyldu hans, jafnvel þótt einstaklingurinn sé ekki öllum stundum frá áfengi og vímuefnum.

Varanlegt bindindi getur ekki verið eina útkoman út úr svo flóknum sjúkdómi.

Hvernig er hægt að mæla árangur af meðferðinni öðru vísi en í bindindi?

Við höfum mikið af upplýsingum og mælingum um árangur meðferðarinnar og það er alveg ljóst að meðferð virkar við fíknsjúkdómi. Árangurinn er skammtaháður eins og það er kallað sem þýðir að meiri meðferð skilar meiri árangri. Eftir því sem meðferðin er veitt yfir lengri tíma, þeim mun betri árangur næst.

Við vitum að helmingurinn af þeim, sem hafa komið hingað, hafa ekki komið aftur. Ég er ekki að fullyrða að þau öll séu heima í góðum málum, en örugglega stór hluti. Og við vitum að það eru bara 3-4% af öllum okkar sjúklingum sem hafa komið tíu sinnum eða oftar. Það er ótrúlega lítið hlutfall en ég held að þetta sé svipað og í öðrum langvinnum sjúkdómum. Árangur má mæla á margan annan hátt en bindindi, eins og í samskiptahæfni, glæpum, heilsufari, fjölskyldulífi og vinnu. Það eru til slíkir staðlar sem við höfum einnig lagt fyrir okkar sjúklinga á Vogi á tímabilum og gert eftirfylgni á ákveðnum undirhópum í rannsóknarskyni.

Svipaður árangur og í öðrum langvinnum sjúkdómum.

Það að telja dagana sem fólk er allsgáð er auðvitað einn mælikvarði en hann er ansi harðneskjulegur. Samkvæmt honum skilar meðferð við þessum sjúkdómi samt svipuðum árangri og þegar um er að ræða króníska sjúkdóma eins og sykursýki eða of háan blóðþrýsting. Það má búast við að um fjórðungur til þriðjungur þurfi eitt inngrip og haldi bata eftir það.

Aðrir sjúklingar þurfa meira, aðlögun, hækkun skammta, viðbótarmeðferð, við háum blóðþrýstingi eins og við áfengis- og vímuefnafíkn.

Ég nefndi að af öllum þeim, sem koma hingað á Vog, hafa sumir ekki hugsað málin vel. Sumir útskrifa sig sjálfir. En af öllum þeim fjölda sem skráist hér inn fara um 70% út með áætlun um að fara annað hvort á göngudeild SÁÁ eða í eftirmeðferð á Vík eða Staðarfelli. Það er mjög góður árangur.

Það má skoða þetta á margan annan hátt en alltaf er niðurstaðan sú að varðandi þennan sjúkdóm er árangurinn svipaður og þegar um er að ræða aðra, langvinna sjúkdóma. Við vildum kannski einnig gjarnan vita árangur af þunglyndismeðferð eða lungnaþembumeðferð á sjúkrahúsi og hversu viðvarandi og algjör hann er? Við vitum að slíkt mat er dregið af sérhæfðum rannsóknum af afmörkuðum viðmiðunarpunktum og áætlunum frá hliðarupplýsingum og svo er einnig í þessu fagi. Við höfum margar upplýsingar um hvernig árangurinn er, afmarkaðar rannsóknir sem sýna bindindi til margra ára, styttri rannsóknir sem sýna góðan árangur meðferðarinnar til 6 mánaða á einum erfiðasta hópnum, sem eru amfetamínfíklar. Lýðheilsukannanir segja okkur til um stórt hlutfall sem er í bindindi eftir meðferð o.s.frv.

Það er ekki ástæða til að slá slöku við, heldur hugsa fyrir aukinni þjónustu og meðferðarleiðum fyrir þennan stóra hóp með þann alvarlega sjúkdóm sem fíknsjúkdómurinn er.

Þegar um er að ræða sykursýki, háan blóðþrýsting, þunglyndi og margs konar langvinna sjúkdóma aðra, nær hluti sjúklinga góðum árangri við fyrsta inngrip og þarf ekki meir. Sumir þurfa aukna meðferð eins og stærri skammta af blóðþrýstingslyfi eða einhverskonar viðbót eða breytingu á meðferð og þá næst fínn árangur.

Prósenturnar hvað þetta varðar eru svipaðar og hjá áfengis- og vímuefnasjúklingum.

Sumir þurfa bara eina meðferð en aðrir þurfa að koma aftur og gera meira til þess að ná betri árangri. Svo eru einhverjir sem eru með skæðan sjúkdóm og illa viðráðanlegan sama hvað er gert.

Auðvitað er mesta púðrið lagt í þessa veikustu af því að þeir eru veikastir og þurfa mikils við. En jafnframt er mikilvægt að það séu opnar dyr fyrir þá sem grípa inn í fíknina snemma því að batalíkur eru miklar og góðar.

Það er mikilvægt að vera með hugann við að þetta er sjálfstæður sjúkdómur og það þarf að sinna honum sérstaklega.

Í gegnum tíðina hefur oft verið reynt að meðhöndla áfengissýki með því að meðhöndla einungis afleiðingarnar en það nægir ekki fyrir þennan heilasjúkdóm. Miða þarf að því að fyrirbyggja fall hjá þeim sem til dæmis hefur hætt að drekka eða nota vímuefni.

Það er spurt: Ef manneskjan er hætt af hverju er hún þá ekki bara hætt það sem eftir er ef það er það sem hún vill? Hún fellur, hvers vegna er það?

Það er sjúkdómurinn. Áður en manneskjan fellur er sjúkdómurinn virkastur og sjúklingurinn veikastur af hinni eiginlegu fíkn.

Stóra verkefnið okkar er að hjálpa fólki við að reyna að ná undirtökunum svo að það þurfi ekki að komast aftur á þann stað að fara að fá sér aftur. Það getur verið erfitt að sjá það takmark ef maður er flæktur í ýmis önnur mál. Þess vegna er mikilvægt að hafa það í huga að þetta er sérstakur, sjálfstæður sjúkdómur.

Fólk verður líka hundveikt af neyslunni. En það eru afleiðingar sjúkdómsins. Afleiðingarnar eru óteljandi og stundum hræðilegar, en þessi heilasjúkdómur sem fíknin er – sú bilun að fara að fá sér aftur – er virkastur áður en fallið kemur.“