Fara í efni
21. júní 2018
Greinar

Þegar fjölskyldur sameinast veit ég að ég er að gera gagn

Siggi Gunnsteins er kvikur og léttur á fæti, brosmildur og fljótur í tilsvörum. Hann er einn elsti og reyndasti áfengis- og vímuefnaráðgjafi landsins – fagnar 40 ára starfsafmæli á árinu. Í vor urðu líka þau tímamót í lífi Sigga að hann átti 40 ára edrúafmæli. Þann 8. maí 1978 fór Siggi í afeitrun upp í Reykjadal, á fyrstu starfsárum SÁÁ. Hann hreifst svo af starfsandanum að hann bað um vinnu hjá félaginu að lokinni meðferð.

Ég er fæddur árið 1941 í Kleppsholtinu í Reykjavík og ólst upp við að spila fótbolta í túnunum. Ég gekk í Laugarnesskóla, var tvo vetur í Langholtsskóla og nam svo trésmíði í Gagnfræðaskóla verknáms. Þegar því námi lauk var ég orðinn sextán ára og hafði mikla útþrá. Mig langaði að fara út í lönd og ferðast um heiminn.

Lærði ensku í Englandi
Ég ákvað að fara í skóla í Englandi og læra ensku. Ég fékk undanþágu hjá breska sendiráðinu af því ég var svo ungur og komst inn í skóla fyrir útlendinga sem var í háskólabænum Cambridge. Þar var ég í þrjá mánuði en þá kallaði skólastjórinn í mig og ráðlagði mér að fara í sama skóla í London. Honum fannst ég eyða of miklum tíma í félagslífið, þarna voru aðrir Íslendingar sem ég umgekkst of mikið að hans mati. Og það varð úr að ég gerði það, fór til London og kláraði skólann þar.

Óreglan tekur sinn toll
Eftir að ég kom heim fór ég að vinna hjá föður mínum sem rak verslun hérna í bænum. Ég hafði kynnst unnustu minni stuttu áður og okkur langaði að koma okkur fyrir í lífinu, fara að búa og eignast börn. Við bjuggum á ýmsum stöðum, m.a. hjá foreldrum mínum en eignuðumst loks íbúð í Hafnarfirði. Börnin komu svo eitt af öðru. Strákurinn minn elsti er fæddur 1960 og hin ´64, ´68 og ´72. Á þessum árum var óreglan byrjuð að taka sinn toll og við hjónin skildum árið 1973. Eftir það fór drykkjan mjög versnandi hjá mér. Ég reyndi að leita mér hjálpar en það var litla hjálp að fá og næstu ár gengu brösuglega.

Fer að rofa til
Það fór að rofa til árið 1977 þegar ég kynntist seinni konu minni, Guðmundu Jóhannsdóttur. Það ár fór ég í meðferð á Vífilstöðum, ákveðinn í að taka mitt líf í gegn. Guðmunda átti fimm börn, við giftum okkur og dætur hennar, Hugrún Hrönn og Guðrún Jónína, ólust upp hjá okkur. En því miður gekk ekki allt hjá okkur í fyrstu eins og við hefðum bæði viljað. Ég drakk nokkrum sinnum og endaði loks í afeitrun aftur í Reykjadal 8. maí 1978. Þarna var SÁÁ að byrja sinn feril og þarna tókst mér að verða edrú – 8. maí er edrúdagurinn minn og fagnaði ég 40 árum án áfengis í vor.

Á tímamótum
Ég stóð á tímamótum sumarið 1978. Þá fór ég að velta alvarlega fyrir mér hvað ég ætti að gera við líf mitt. Þegar ég var í meðferðinni í Reykjadal hafði ég hrifist mjög af starfseminni og öllu sem hún stóð fyrir. Ég þekkti nokkra menn þarna sem voru orðnir edrú og bað einn að spyrjast fyrir um vinnu hjá félaginu. Á þessum tíma var ég lítið að velta fyrir mér hvað ég gæti gert, mig langaði bara að vinna í þessum hópi því það var svo mikið líf í kringum hann. Og það var eftirsóknarvert að mér fannst.

Byrjaði sem kokkur á Sogni
Litlu síðar var komið að máli við mig. Það vantaði matreiðslumann austur á Sogni en þar var nýbúið að setja af stað fyrsta endurhæfingarheimilið fyrir alkóhólista á Íslandi. Ég kunni náttúrlega ekkert að elda en hafði samt mikla löngun til að fara að vinna og hugsaði með mér að það væri nú alltaf hægt að læra þetta. Ég lærði að steikja fisk og búa til kjötbollur og svona en ferill minn sem kokkur var þó stuttur. Ég hafði ekki unnið nema nokkrar vikur þegar fréttist að vantaði ráðgjafa. Ég var hvattur til að sækja um og fékk starfið.

Ekki nóg að vera góðhjartaður AA-maður
Ég fékk strax gífurlega bakteríu fyrir starfinu og var ekki búinn að vinna lengi þegar ég áttaði mig á því að starf áfengis- og vímuefnaráðgjafa var miklu meira en sýndist í fyrstu. Það er ekki nóg að vera góðhjartaður AA-maður til að vera góður áfengis- og vímuefnaráðgjafi og ég fór að verða svolítið tvístígandi um hvort ég myndi yfirhöfuð geta gert þetta nægilega vel.

Úrslitin ráðin í Minnesota í Bandaríkjunum
Um svipað leyti, árið 1979, tek ég ákvörðun um að fara í mjög þekktan sumarskóla, Johnson Institute, í Minnesota í Bandaríkjunum. Í Minnesota hitti ég allskonar þerapista og ráðjafa sem voru búin að vinna lengi við fagið, fékk að heimsækja ólík meðferðarheimili og kynnast fjölbreyttu meðferðarstarfi. Þetta réði alveg úrslitum um mína framtíð. Ég sá að ég yrði að læra meira og mennta mig eins mikið og ég mögulega gæti en ég var ákveðinn í að gera áfengisráðgjöf að mínu ævistarfi.

Ævintýralegir tímar
Þegar ég kom heim var mikil uppbygging í gangi hjá SÁÁ. Við æfðum okkur og þjálfuðum í að búa til betri meðferð og allir dagar fóru í umræður um hvað mætti betur gera. Vindar þjóðfélagsins blésu með okkur, sjúklingarnir vildu koma til okkar, en auðvitað voru ýmsir á móti okkur líka og sögðu að þetta væri bara bóla. Þessi meðferð yrði aldrei neitt, myndi springa og deyja. Sú umræða blés okkur eldmóði í brjóst og við leituðum þekkingar víða, sérstaklega til Bandaríkjanna.

Í námsferð á Fullbright styrk
Árið 1982 var ég að lesa Þjóðviljann – af öllum blöðum – og sé auglýsingu frá Fullbrigtht stofnuninni þar sem auglýst er eftir styrkþegum fyrir námsferðir í Bandaríkjunum. Auglýsingin var ætluð félagsfræðingum, félagsráðgjöfum og öðrum með sambærilega menntun. Mér fannst auglýsingin spennandi og rekstrarstjórinn á Sogni hvatti mig til að sækja um þótt ég hefði ekki menntunina sem beðið var um. „Það kostar ekkert nema frímerki,“ sagði hann, og ég gerði það, og gleymdi þessu svo bara. Stuttu síðar kom bréf inn um lúguna og ég var boðaður í viðtal. Í næsta viðtalinu á eftir tók á móti mér stór og mikil dökk bandarísk kona sem hét Betty Ford. Hún sagðist þekkja manneskju sem myndi örugglega vilja fá mig til sín í vinnu. Og það varð úr að ég fór til Atlanta að vinna á ríkisspítalanum í Georgíu.

Mikil lífsreynsla að starfa á geðdeild í Georgiu
Á ríkisspítalanum í Georgíu var stærðarinnar geðdeild, með afeitrunarstöð fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga. Fyrstu þrjá mánuðina bjó ég í hverfi þeldökkra í Hightower í Atlanta. Ég naut mín vel á spítalanum, skilaði átta tíma vinnudag og þurfti auk þess að stunda kennslu í háskólanum í tvær vikur. Það var hluti af pakkanum að ég fékk laun og úthlutaðan umsjónarmann sem fór með mig um allt til að skoða meðferðarstöðvar sem þarna voru nálægt – sumar voru alveg ömurlegar en aðrar yfirþyrmandi flottar. Seinni þrjá mánuðina bjó ég í Vista Ave og bjó þar hjá hjónum sem áttu eftir að verða mjög góðir vinir mínir og ég hef haldið sambandi við síðan.

Á spítalanum vorum við að afeitra fólk og senda það frá okkur inn í önnur úrræði. Það var ótrúleg lífsreynsla fyrir mig að vinna þarna í þessu svarta umhverfi, sem var nú ekki ríkmannlegt fyrir þá sem við vorum að þjóna, komandi frá landi þar sem allt er félagslega tryggt yfir í þetta ástand þar sem menn voru ótryggðir, áttu ekki neitt og voru bara nafnnúmer. Þetta var mest undirmálsfólk, fólk á götunni og fólk sem var einfaldlega tekið úr umferð. Þarna hitti ég fólk sem var á flótta og var eftirlýst. Mér er það minnisstætt að ég var að vinna með ungum manni sem ég náði góðum tengslum við. Ég var að hvetja hann til að leita til Hjálpræðishersins þar sem hann gæti hugsanlega fengið vinnu og húsnæði í allt að tvö ár. Okkur var orðið vel ágengt þegar tveir lögreglumenn mættu einn góðan veðurdag og handtóku hann. Þá kom í ljós að hann var eftirlýstur í Texas fyrir líkamsárás. Ungi maðurinn var tekinn og farið með hann, allt sem við höfðum gert var þurrkað út, og ég sá hann aldrei aftur.

Ráðgjafastarfið lögverndað
Þegar ég kom heim hélt uppbyggingin áfram. Árið 1987 byrjuðum við að koma á fót sérúrræðum eins og Víkingameðferðinni og Staðarfell var opnað, hópurinn fór sífellt stækkandi og áhuginn var mikill. Á þessum árum fórum við að finna að starfsemin var orðin stöðug, við vorum komnir til að vera. Ráðgjafar fóru líka að finna í auknum mæli fyrir mætti sínum hvað varðar fagmennsku og sá draumur kviknaði að gera ráðgjafastarfið að viðurkenndri fagstétt. Ég hafði verið meðlimur í bandaríska ráðgjafafélaginu sem stuðningsaðili og sótti ráðstefnur ásamt Þórarni Tyrfingssyni hjá SECAD á hverju ári. Þar mynduðum við mikilvæg tengsl, kynntumst fólki eins og Terence Gorski, Norman Miller og komum á fót ráðgjafaskiptiferðum, bæði til austurstrandarinnar, New Port og Chicago. Á þessum árum var meðferðarstarf í Bandaríkjunum að ná hátindi og mikið að gerast í fræðunum.

Það voru gífurleg tímamót þegar við fengum loks löggild réttindi sem áfengis- og vímuefnaráðgjafar árið 2006. Við höfðum lengi verið að banka á alls konar dyr, hjá landlækni og hjá heilbrigðisráðherrum, til að reyna að koma því þannig fyrir að ráðgjafastarfið yrði viðurkennt með einhverju móti. Það var svo í framhaldi af Byrgismálinu árið 2006 að heilbrigðisráðherra sá að þetta gengi ekki svona lengur. Viðbrögð hans voru að áfengis- og vímuefnaráðgjöf ætti að vera hluti af heilbrigðisfjölskyldunni, að undangengnum ákveðnum skilyrðum. Við fengum að taka próf og þeir sem stóðust þau fengu réttindi til að kalla sig áfengis- og vímuefnaráðgjafa og starfa sem slíkir en aðrir ekki. Auk þessara réttinda vorum ég og fleiri með bandaríska prófið frá Naadac. Þeir sem eru með það próf eru með alþjóðleg og bandarísk starfsréttindi og mega vinna í öllum fylkjum Bandaríkjanna sem áfengis- og vímuefnaráðgjafar.

SÁÁ skólinn í miklum blóma
Við höfum verið að reyna að viðhalda þessum faglega árangri með því að starfrækja okkar eigin heilbrigðisskóla hjá SÁÁ. Við höfum frá upphafi verið með fræðslu fyrir ráðgjafana okkar því við áttuðum okkur snemma á því að góðir ráðgjafar þyrftu að hafa ákveðna hluti í lagi. Fyrir 10-12 árum settum við af stað formlegan skóla og þessi misserin er kennslan í miklum blóma. Það er mikill bragur á skólanum, bæði í handleiðslunni fyrir reyndari ráðgjafa, sem og kennslunni fyrir nýju nemana.

Það er ekkert eins og það var
Þegar ég lít tilbaka finnst mér eins og ekkert sé eins og það var. Það hafa orðið gífurlegar framfarir í þekkingu á fíknsjúkdómnum. Þegar ég byrjaði voru menn með puttana í myrkrinu. Með meiri vísindum, meiri þekkingu og meiri tækni höfum við getað útilokað vissa hluti og sannfærst um aðra. Nú hefur orðið til sérstök grein innan læknisfræðinnar sem heitir Addiction Medicine, eða fíknlækningar, og verið er að kenna hana í Bandaríkjunum. Um leið og þekkingin á sjúkdómnum verður til breytist meðferðin. Við verðum öruggari um ýmislegt sem við giskuðum á áður og getum nefnt hlutina réttu nöfnunum. Þetta hefur gífurleg áhrif á allt, bæði þekkinguna á sjúkdómnum og hliðarverkanir hans.

Auk vísindalegrar þekkingar hafa svo komið til sögunnar nýir vímugjafar, ný vímuefni, og misnotkun á þeim. Í sumum tilfellum sjáum við ekki fyrir endann á vandanum, þessi gífurlega notkun á t.d. örvandi efnum, eins og rítalíni. Við vitum ekki hver afleiðingin verður af þeirri neyslu, hvaða langtímaáhrif eiga eftir að koma í ljós. Við sjáum líka breytingar á skjólstæðingum okkar, á viðhorfum þeirra og hegðunarmynstri. Allt saman þýðir þetta að við þurfum að beita nýjum nálgunum í meðferðarflórunni. Það eina sem hefur kannski lítið breyst er batinn sjálfur og bataferillinn. Við erum alltaf að sækjast eftir því sama, við erum að koma frá ákveðnum stað og viljum fara á betri stað, höfum væntingar um betra líf. Og sumar gamlar lummur lifa ennþá góðu lífi, eins og þróunarferill fíknarinnar, hann er ósköp ámóta í dag og fyrir 40 árum. Fólk byrjar neyslu af því að það finnur eitthvað jákvætt þegar það er undir áhrifum en svo breytist það í harmleik, oft á tiltölulega skömmum tíma.

Hægt að meta árangur meðferðar á margan hátt
Þegar fólk kemur til meðferðar á Vogi er sjúkdómurinn yfirleitt búinn að vera grasserandi mjög lengi. Stundum gerist eitthvað sem snýr fólki á punktinum og það óskar eftir því að koma til meðferðar en meðferð er ekki skyndilausn heldur langtímalausn. Allar meðferðir okkar í dag eru ársmeðferðir. Einstaklingur kemur til meðferðar, afeitrast, fær greiningu og síðan tekur við endurhæfing og eftirfylgni. Oft þiggja skjólstæðingar ekki þá meðferð sem þeim er fyrir bestu hverju sinni og vilja heldur stytta sér leið og gera hlutina á sínum forsendum. Í þeim tilfellum reynum við að styðja það og búa til góðar áætlanir með einstaklingnum. Stundum tekst það vel en stundum ekki og þá erum við auðvitað með opnar dyr. Við erum alltaf tilbúin til að taka á móti fólki eins oft og þarf því fíknsjúkdómurinn er krónískur sjúkdómur og hann er, eins og aðrir krónískir sjúkdómar, oft erfiður viðfangs í upphafi. Oft þarf margar meðferðir en tölfræðin segir okkur að rúmlega 80% sjúklinga okkar koma þrisvar sinnum eða sjaldnar í meðferð. Langstærsti hópurinn þarf því tiltölulega fáar meðferðir en svo verður alltaf að taka til greina hvað fólk vill gera sjálft til að hámarka batahorfur sínar.

Í okkar starfi er enginn vonlaus þótt auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að við erum stundum að meðhöndla einstaklinga sem þurfa líknandi meðferð og batahorfurnar eru ekki góðar. Þá reynum við að auka lífsgæði þeirra og við höldum því áfram þangað til eitthvað gerist. Þetta er mjög ásættanlegt fyrir okkur sem vinnum hér. Það er hægt að meta gæði meðferðar á margan hátt. Að auka lífsgæði er góður árangur. Sá sem drekkur meira og minna alla daga ársins en nær að minnka drykkjuna niður í nokkrar helgar á ári eftir meðferð er að ná miklum árangri. Og gæti náð enn betri árangri eftir næstu meðferð.

Vonleysi stýrir umræðunni um neyslurými
Stundum er litið fram hjá því að hjá SÁÁ hefur verið unnið að skaðaminnkun frá upphafi sem er fólgin í því að búa til edrúsamfélag. Að fólk með fíknsjúkdóm verði áhrifavaldar í sínu samfélagi, standi sig gagnvart börnum sínum og fjölskyldu – það hlýtur að vera einhver mesta skaðaminnkun sem til er. Auk þessa höfum við síðustu áratugi verið með viðhaldsmeðferð sem er líka gríðarleg skaðaminnkun. Það eru að jafnaði rúmlega 100 manns á viðhaldsmeðferðinni og sá hópur var mjög veikur, sprautaði vímuefnum í æð, en er núna virkur í lífinu í stað þess að vera byrði á samfélaginu.

Hvað varðar umræðuna um að að búa til hreiður, eða neyslurými, fyrir fólk sem sprautar vímuefnum í æð þá hef ég ekki myndað mér neina sérstaka skoðun á því. Ég er búinn að vera lengi í þessu fagi og á mjög erfitt með að horfa upp á að það skuli ekki vera hægt að vinna þetta með einhverjum öðrum hætti. Ég trúi því ekki að fólk vilji vera svona veikt og held að vonleysi stýri þessari umræðu. Fólk gefst upp fyrir vandanum og reynir að finna leiðir til að láta þetta ganga í staðinn fyrir að reyna að gera eitthvað sem þá er vænlegra til árangurs. Ég get illa séð að aðstoð við að viðhalda fíkninni sé eitthvað sem muni breyta miklu til hins betra. En það getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér.

Hlaupin enduðu með ósköpum
Ég fékk fljótt að heyra að ég myndi ekki verða fimmaura virði í þessu starfi ef ég passaði ekki upp á mína eigin geðheilsu. Ég hef sinnt edrúmennskunni vel en ég hef auðvitað þurft að bæta við öðrum aðgerðum til þess að halda sönsum. Þegar ég byrjaði í þessu starfi fór ég alveg á bólakaf inn í þetta. Ég hef alltaf verið dellukarl, allt sem ég hef fengið áhuga á hefur farið út í öfgar og ég sökkti mér niður í starfið. Konan mín sá þetta og ég held að hún hafi verið að vona að þetta stæði bara yfir í tiltölulegan stuttan tíma.

Ég hef áhuga á íþróttum og fór ungur að æfa fimleika. Eftir að rann af mér fór ég að byggja mig upp og stunda líkamsrækt. Það er mikilvægt að losa streitu með hreyfingu og hafa gott samfélag í kringum sig. Áhugamálin hafa líka hjálpað mér. Ég fór að veiða mikið á tímabili og fer enn að veiða með strákunum mínum á hverju sumri. Árið 1995 meiddist ég í líkamsræktinni og gat ekki stundað hana um tíma. Þá fór ég að skokka með Þórarni í Laugardalnun og eftir að hafa hlaupið nokkra hringi þar fannst mér það ekki duga mér og þetta endaði með ósköpum. Næstu ár var ég heltekinn af hlaupum og endaði á því að hlaupa 100 km og toppaði það svo með því að taka þátt í heimsmeistarakeppni í Frakklandi árið 2001. Ég hef ennþá gaman af að fara með félögunum í sund og skokka í Laugardalnum. Ég tel að hlaupin hafi skipt sköpum fyrir mig hvað varðar góða heilsu.

Getur ekki hætt
Núna er ég í hlutastarfi, ég fékk tækifæri til að koma aftur til starfa eftir að hafa hætt á sínum tíma sökum aldurs. Ég sinni bæði kennslu og handleiðslu, ég held fyrirlestra, bæði hér á Vogi og á göngudeildinni. Ég er ekki tilbúinn að setjast í helgan stein. Ég finn ennþá þennan eldmóð þegar ég mæti í vinnuna og mér finnst mikið eftir, það er nóg að gera og fjölmörg verkefni.

Er enn að leita
Það hafa 25 þúsund einstaklingar komið til meðferðar hjá SÁÁ síðastliðin 40 ár og konan mín segir stundum að það sé ekki hægt að fara með mér í bæinn því auðvitað þekki ég alveg gífurlega mikið af andlitum. Þetta er orðinn stór hópur, fólkið sem ég hef tekið á móti, kynnst, setið hjá og talað við. En einhvern veginn hef ég getað farið úr vinnunni sáttur eftir daginn og ekki verið að burðast mikið með áhyggjur. Vinnan hefur verið mitt áhugamál líka. Ég hef eytt miklum frítíma í að búa mér til eitthvað tengt vinnunni, lesið og farið á ráðstefnur erlendis og fengið að fylgjast með starfi ráðgjafa, allt á eigin vegum. Þetta hefur gefið mér mikið, ég hef kynnst fullt af fólki og nýjum aðferðum og oftar en ekki hef ég komið heim með það í farteskinu að við værum alveg á réttri leið.

Eðli fíknsjúkdómsins er þannig að fólk er oft mjög veikt en það vill ekki vera veikt. Og fólk gerir ekki alltaf það sem þú helst vildir að það gerði. Listin við að hjálpa þessum einstaklingum felst svolítið í því að búa til meðferðartengsl við þann sem vill ekki mynda tengslin. Og til þess þarf úthald og þolinmæði. Starfið er krefjandi, og í því mætast skin og skúrir, en þegar fjölskyldur sameinast veit ég að ég er að gera gagn. Það eru verðlaunin.

Og þannig finnst mér ævistarfið hafa verið, ógleymanlegur tími og stöðug leit að nýjum aðferðum. Og ég er enn að leita.