28. nóvember 2023
Fréttir
Jólaálfur SÁÁ kom til byggða með Strætó
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra mætti í hádeginu í strætóskýlið við Lækjartorg til að taka á móti Jólaálfi SÁÁ, sem að þessu sinni kom til byggða með strætó. Samferða Jólaálfinum í strætó voru Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður SÁÁ, Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó og Ásgerður Erla Haraldsdóttir starfsmaður SÁÁ sem afhenti ráðherranum Jólaálfinn, sem að þessu sinni er Stúfur.
Álfasala SÁÁ hefst á morgun og stendur fram á sunnudag. Álfasalan er ein mikilvægasta fjáröflunarleið samtakanna og aldrei hefur verið jafn mikil þörf fyrir góðar undirtektir við Jólaálfunum og nú. Sölufólk SÁÁ verður á fjölförnum stöðum um allt land og á völdum dögum um borð í Strætó.