SÁÁ og Símenntun HA í samstarf
NÝTT NÁM Í ÁFENGIS- OG VÍMUEFNARÁÐGJÖF
SÁÁ hefur gert samning um samstarf við Símenntun Háskólans á Akureyri og mun bjóða upp á nám í áfengis- og vímuefnráðgjöf í haust. Námið er opið öllum sem hafa áhuga á að aðstoða fólk með fíknsjúkdóm og auka innsýn sína og þekkingu á þeirra vanda.
Námið er skipulagt og kennt af sérfræðingum SÁÁ og verður kennt í lotum sem henta þeim sem eru í starfi. Innihald námsins snýst um fræðilega undirstöðuþekkingu á fíknsjúkdómnum, skilning á afleiðingum og áhrifum fíknsjúkdóms, og hvernig megi stuðla að bata og velferð fólks með fíknsjúkdóm og aðstandenda þeirra.
Sérmenntun á sviði áfengis- og vímuefnaráðgjafar er ómissandi í þverfaglegri þjónustu við fólk með fíknsjúkdóm. Námið uppfyllir einn hluta (fræðilegur hluti) af skilyrðum til löggildingar sem áfengis- og vímeufnráðgjafi (1106/2012 – Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuefnaráðgjafa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. (island.is)). Starfsnám fer áfram fram hjá SÁÁ.
"Við erum himinlifandi að geta opnað á þekkingu til alls samfélagsins um fíknsjúkdóminn og stuðla að því þjónustuveitendur geti betur mætt þörfum fólks með fíkn. Samstarf við HA er gleðiefni, þar er mikil reynsla og þekking á því að bjóða upp á fagnám og fjarlausnir sem munu bæta gæði námsins."
Á myndinni, sem tekin var við undirritun samningsins á skrifstofu Símenntunar HA eru Stefán Guðnason forstöðumaður Símenntunar HA og Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður SÁÁ.