Fara í efni

Afeitrun og greining

Sérhæfð meðferð við fíknsjúkdómi hjá SÁÁ lýtur faglegum kröfum

 

Sjúkdómur sem hægt er að meðhöndla

Meðferðin leggur áherslu á fíknsjúkdóm sem margþátta sjúkdóm sem hægt er að meðhöndla. Hún er byggð á læknisfræðilegum greiningum, afeitrun með fagfólki, lyfjameðferð og einstaklingshæfðri sálfélagslegri meðferð. Meðferðin grípur inn í fylgikvilla, þ.e. líkamlega, geðræna og félagslega. Skimað er fyrir smitsjúkdómum, notuð er sérhæfð viðtalstækni fyrir mismunandi þarfir og einnig er dagleg fræðsla og hópmeðferðir sem eru kynja- og aldursskiptar. Lögð er áhersla á eftirfylgni og fjölbreytt úrræði til reiðu. Mismunandi hópar fá mismunandi úrræði.

Afeitrun og greining

Á Sjúkrahúsinu Vogi eru rúm fyrir um 60 sjúklinga. Innlagnir eru 6-7 á dag, alla daga ársins. Meðalaldur er 35 ár. Árlega koma um 600 einstaklingar í fyrsta sinn í meðferð, frá öllum landshlutum, og svo hefur verið í áratugi. Á Sjúkrahúsinu Vogi fá sjúklingar afeitrun og greiningu. Læknir leggur mat á meðferðarþörf. Flestir eru undir áhrifum vímuefna eða í fráhvörfum við komu. Fráhvarfsmeðferð er veitt af læknum og hjúkrunarfræðingum. Á sérstökum sjúkragangi, Gátinni, á Vogi eru 11 sjúkrarúm fyrir veikustu sjúklingana. Hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og ráðgjafar eru til staðar allan sólarhringinn. Læknir er einnig á vakt á sjúkrahúsinu alla daga vikunnar og á bakvakt kvöld og nætur.

Sálfélagsleg meðferð

Hefst samhliða fráhvarfsmeðferð og miðar að bata án vímuefna. Sálfélagslega meðferðin er fólgin í fræðslu um fíknsjúkdóminn, hópmeðferð til að styðja við innsæi, og sérsniðnum verkefnum sem treysta grunninn að breyttum lífsstíl. Áhugahvetjandi samtalið styður sjúklinga til að ná meðferðarmarkmiðum sínum.

Þverfaglegt teymi

Að baki meðferðinni standa áfengis- og vímuefnaráðgjafar sem meta meðferðarþörf og aðstæður hvers og eins í viðtölum og stýra hópmeðferð, sálfræðingar sem meta sálfræðilega stöðu og leggja til leiðir til bata, læknar sem meta lyfjaþörf vegna fráhvarfa og annarra líkamlegra jafnt sem geðrænna kvilla, og hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar sem veita öllum aðhlynningu eftir þörfum.

Einstaklingshæfð meðferðaráætlun

Er gerð í samvinnu við sjúklinginn þar sem tekið er tillit til kyns, aldurs, félagslegra, líkamlegra og sálfræðilegra þarfa. Sálfélagslega meðferðin er kynjaskipt til að skapa öryggi og næði til að ræða viðkvæm mál og styrkja félagsleg tengsl meðal kvenna/karla.

Kynjaskipting hefur aukist á Vogi

Nú eru allir meðferðarhópar kynjaskiptir, einnig svefngangar á neðri hæð þar sem konur eru á sérstökum gangi. Sameiginleg rými í fyrirlestrasal og í matsal eru kynjaskipt.

Gangur meðferðar

Teymið fylgist náið með framförum hvers og eins, hjúkrun er mikil í upphafi til að greina og meta fráhvarfsmeðferð og heilsu, læknar tala við sjúklinga daglega, og um leið og sjúklingur hefur getu til tekur hann þátt í sálfélagslegu meðferðinni.

Meðferðarúrræði sem hefjast á Vogi

Eftirmeðferð

Fíknimeðferð SÁÁ miðar að því að fólki ná bata en það er líka mikilvægt að viðhalda bata og öðlast allt annað líf! Við útskrift munu fagaðilar ræða um hvernig megi stuðla sem best að því fyrir þig. Ef einhver vandi er til staðar sem gæti verið þröskuldur í þínu lífi reynum við saman að finna því farveg. Við erum áfram til staðar til að styðja við batann næstu 6 mánuði með vikulegum stuðningshóðum í göngudeild. Við vitum að það sem er heillavænlegast til að viðhalda bata eru

  • Stuðningshópar leiddir af fagaðilum
  • Jafningjastuðningur eins og AA/NA fundir
  • Sjálfsrækt af ýmsum toga